Hicks tekur við skyldum Austin

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP/Brendan Smialowski

Kathleen Hicks, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur tekið við störfum og skyldum LloydAustin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem lagður var inn á gjörgæsludeild í gærkvöldi. 

Austin var fluttur á sjúkrahús síðdegis í gær vegna vandamála sem tengdust þvagblöðru. Í tilkynningu frá Pat Ryder, tals­manni ráðuneyt­is­ins, segir að Hvíta húsið og þingið hafi verið upplýst um innlögnina. 

Gagnrýndur fyrir fyrri ákvörðun

Aust­in gekkst und­ir aðgerð vegna krabba­meins í blöðru­hálskirtli í des­em­ber. Skömmu eft­ir að hafa verið út­skrifaður af sjúkra­hús­inu var hann lagður aft­ur inn vegna mik­illa verkja og ógleði. Austin hélt sjúkrahúsdvölinni leyndri fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta og öðrum háttsettum embættismönnum sem vissu ekki af innlögninni fyrr en í byrjun janúar. 

Fyrir þetta hefur Austin hlotið mikla gagnrýni sérstaklega í ljósi þeirra áskoranna sem Bandaríkin standa frammi fyrir bæði í Miðausturlöndunum og Úkraínu. 

Óvíst um lengd sjúkrahúsdvalarinnar

Að þessu sinni voru aftur á móti allir upplýstir um innlögnina auk þess sem almenningi var gert viðvart um tveimur klukkustundum eftir að hann var sendur á sjúkrahús síðdegis í gær. 

Í fyrstu tilkynningunni sem barst frá Ryder sagði að Austin væri með leynilegt fjarskiptakerfi á sjúkrahúsinu og myndi þannig áfram sinna starfi sínu og skyldum. Nokkrum klukkustundum síðar barst þó önnur tilkynning þar sem sagði að Hicks myndi taka við. 

Í tilkynningunni sagði jafnframt að óvíst væri hversu lengi Austin yrði á sjúkrahúsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert