Kathleen Hicks, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur tekið við störfum og skyldum LloydAustin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem lagður var inn á gjörgæsludeild í gærkvöldi.
Austin var fluttur á sjúkrahús síðdegis í gær vegna vandamála sem tengdust þvagblöðru. Í tilkynningu frá Pat Ryder, talsmanni ráðuneytisins, segir að Hvíta húsið og þingið hafi verið upplýst um innlögnina.
Austin gekkst undir aðgerð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli í desember. Skömmu eftir að hafa verið útskrifaður af sjúkrahúsinu var hann lagður aftur inn vegna mikilla verkja og ógleði. Austin hélt sjúkrahúsdvölinni leyndri fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta og öðrum háttsettum embættismönnum sem vissu ekki af innlögninni fyrr en í byrjun janúar.
Fyrir þetta hefur Austin hlotið mikla gagnrýni sérstaklega í ljósi þeirra áskoranna sem Bandaríkin standa frammi fyrir bæði í Miðausturlöndunum og Úkraínu.
Að þessu sinni voru aftur á móti allir upplýstir um innlögnina auk þess sem almenningi var gert viðvart um tveimur klukkustundum eftir að hann var sendur á sjúkrahús síðdegis í gær.
Í fyrstu tilkynningunni sem barst frá Ryder sagði að Austin væri með leynilegt fjarskiptakerfi á sjúkrahúsinu og myndi þannig áfram sinna starfi sínu og skyldum. Nokkrum klukkustundum síðar barst þó önnur tilkynning þar sem sagði að Hicks myndi taka við.
Í tilkynningunni sagði jafnframt að óvíst væri hversu lengi Austin yrði á sjúkrahúsi.