Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, undir stjórn Hamas, segja um hundrað Palestínumenn, þar á meðal börn, hafa fallið í árásum Ísraelshers, IDF, í nótt á borgina Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins.
Að sögn ísraelskra stjórnvalda bjargaði Ísraelsher tveimur gíslum í aðgerðunum sem Hamas handsömuðu í hryðjuverkunum 7. október.
Mennirnir tveir, Fernando Simon Marman og Louis Har, hafa verið í haldi Hamas í næstum 130 daga. Í yfirlýsingu IDF segir að báðir mennirnir séu í „líkamlega góðu ástandi“.
„Herinn og ísraelska öryggissveitin Shin Bet hafa unnið að þessum aðgerðum í langan tíma og biðu þar til aðstæður voru ákjósanlegar til að framkvæma þær,“ sagði Daniel Hagari, talsmaður hersins.
Ísraelsher undirbýr nú frekari árásir á svæðinu, skammt frá landamærum Egyptalands, þar sem hundruð þúsunda Palestínumanna hafa leitað skjóls frá átökum í norðurhluta Gasa.
Stjórnvöld víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum, hafa lýst yfir miklum áhyggjum af frekari árásum IDF í Rafah vegna ástandsins þar.