Ástralska ríkið samdi við vafasöm fyrirtæki

Flóttamenn og hælisleitendur við flóttamannabúðirnar á Manus.
Flóttamenn og hælisleitendur við flóttamannabúðirnar á Manus. AFP

Áströlsk yfirvöld gerðu samninga við fyrirtæki sem voru grunuð um peningaþvætti, mútugreiðslur, vopnaflutning, eiturlyfjasmygl og spillingu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem voru birtar í gær. 

Fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu Ástralíu stjórnaði rannsókninni.

Fram kom að þó nokkur fyrirtæki og einstaklingar, sem gerðu samninga við ríkið um að stjórna umdeildu verkefni sem snerist um flutning flóttafólks af landi brott, voru grunuð um ósiðlegt eða ólöglegt athæfi.

„Það er mögulegt að hundruð milljóna dollara hafi farið frá skattgreiðendum til fyrirtækja sem notuðu peningana að hluta til í glæpsamlegt athæfi,” sagði ráðherrann Clare O´Neil, sem óskaði eftir rannsókninni.

Sem hluta af verkefninu „Kyrrahafslausnin” voru þúsundir manna sem reyndu að komast með báti til Ástralíu fluttir á brott til Kyrrahafseyjanna Manus og Nauru allt frá árinu 2001.

Margir ílengdust í flóttamannabúðunum í mörg ár í aðstæðum sem mannréttindasamtök hafa lýst sem „hreinasta helvíti”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka