Varnarmálaráðherra lýsir yfir sigri

Subianto fagnar sigri.
Subianto fagnar sigri. AFP/Yasuyoshi Chiba

Fyrrum hershöfðingi og núverandi varnarmálaráðherra Indónesíu, Prabowo Subianto, hefur lýst yfir sigri í forsetakosningunum þar í landi. Fyrstu tölur benda til þess að hann hafi hlotið um 57% atkvæða.

Kannanir höfðu lengi sýnt að hann væri með umtalsvert forskot á tvo mótframbjóðendur sína, en til þess að koma í veg fyrir aðra umferð af kosningum þurfti Subianto að hljóta yfir 50% atkvæða.

Sonur forsetans varaforsetaefni Subianto

Hann hafði heitið kjósendum því að halda áfram á sömu braut og Joko Widodo, núverandi forseti Indónesíu, sem þótti afar vinsæll. Athygli vakti að sonur Widodo var varaforsetaefni Subianto.

„Þessi sigur er sigur fyrir alla Indónesa,“ sagði Subianto í kjölfar þess að bráðabirgðaniðurstöður voru birtar.

Lokaniðurstaða liggur ekki fyrir fyrr en í næsta mánuði, en að minnsta kosti fjögur samtök sem eru samþykkt af ríkisstjórninni og útbúa spár byggðar á fyrstu tölum, sýndu að Subianto hlaut um 57 prósent atkvæða.

205 milljónir manns voru á kjörskrá en þetta voru fimmtu forsetakosningarnar í Indónesíu síðan einræðistíð Suharto lauk árið 1998.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert