Kveða upp dóm í máli Breiviks gegn ríkinu í dag

Breivik situr á milli lögmanns síns, Øystein Storrvik, og aðstoðarmanns …
Breivik situr á milli lögmanns síns, Øystein Storrvik, og aðstoðarmanns lögmannsins, Marte Lindholm. AFP/Cornelius Poppe

Norskur dómstóll mun í dag kveða upp dóm í máli þar sem tekist er á um hvort einangrunarvistin, sem hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik hefur sætt í fangelsi, sé ómannúðleg.

Breivik, sem myrti 77 manns í hryðjuverkum árið 2011, var vistaður í öryggisfangelsi fyrir tólf árum. Síðasta áratuginn hefur hann sætt mikilli einangrun þar sem hann hefur m.a. ekki mátt dvelja meðal samfanga sinna.

Breivik telur aðstæðurnar í fangelsinu bæði ómannúðlegar og niðurlægjandi, og brot gegn þriðju grein mannréttindasáttmála Evrópu. Stefndi hann norska ríkinu vegna þessa og krafðist þess að losna úr einangrun.

Lögmenn norska ríkisins halda því fram að þó Breivik sæti ströngum reglum í fangelsinu sé dvöl hans „frekar þægileg“ og réttlætanleg í ljósi þeirrar hættu sem stafi af honum. Hann sé enn hættulegasti maður Noregs.

Sagði Breivik með sjálfsvígshugsanir

Fimm daga réttarhöld voru haldin snemma í janúar í íþróttasal Ringerike-fangelsisins.

Øystein Storrvik, lögfræðingur Breiviks, sagði skjólstæðing sinn glíma við sjálfsvígshugleiðingar. „Hann not­ar geðlyfið Prozac til að geta kom­ist í gegn­um dag­inn í fang­els­inu,” sagði Storrvik. 

Persónuleg samskipti við tvo fanga

Að sögn lögfræðingsins á Brei­vik ein­göngu per­sónu­leg sam­skipti við tvo aðra fanga sem hann hitt­ir í eina klukku­stund á tveggja vikna fresti und­ir ströngu eft­ir­liti, fyr­ir utan sam­skipti við starfs­menn fang­els­is­ins.

Þá hefur Breivik einnig vakið athygli á grein í mannréttindasáttmálanum sem kveður á um réttinn til samskipta og hefur óskað eftir því að banni við að skrifa bréf til fólks utan fang­els­is­ins verði aflétt.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/01/09/enn_haettulegasti_madur_noregs/

Leikjatölva og heilsurækt

Rýmið sem Breivik hefur einn afnot af í fangelsinu samanstendur af stofu, skrifstofu og lítilli líkamsrækt. Þá deilir hann rými með öðrum fanga, þó aldrei á sama tíma, sem samanstendur af eldhúsi, sjónvarpsherbergi, borðstofu og heimsóknarherbergi.

Hefur hann m.a. aðgang að flatskjá og Xbox-leikjatölvu.

„Það er einstaklega vel séð um Breivik,“ hefur Eirik Bergstedt fangelsisstjórinn sagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert