Senda liðsauka til Avdiivka þar sem staðan er tvísýn

Úkraínski herinn hefur sent liðsauka til bæjarins Avdiivka, sem er í austurhluta landsins, þar sem hart hefur verið barist. Rússneskar hersveitir hafa umkringt bæinn á þremur svæðum og að sögn Úkraínuhers er staðan afar tvísýn. 

Þá hafa Rússar greint frá því að Úkraínumenn hafi skotið flugskeytum á landamæraborgina Belgorod þar sem að minnsta kosti fimm féllu í valinn. 

Rússar og Úkraínumenn hafa hert sóknina úr lofti nú þegar brátt verða liðin tvö ár frá því rússneski herinn réðist inn í Úkraínu. 

Staða hersveita Úkraínumanna í kringum Avdiivka, sem tilheyrir Donetsk-héraði, hefur versnað mikið undanfarið, en bærinn liggur við fremstu víglínu.  

Úkraínski herinn staðfestir að verið sé að senda liðsauka á svæðið til að styrkja þær sveitir sem fyrir eru í Avdiivka.

Oleksandr Sirskí, yfirmaður úkraínska heraflans, fer yfir stöðu mála í …
Oleksandr Sirskí, yfirmaður úkraínska heraflans, fer yfir stöðu mála í Úkraínu með öðrum herforingjum. AFP

Ástandið óstöðugt og Rússar fjölga hermönnum

Staðan er sögð mjög tvísýn og ástandið óstöðugt. Talsmenn hersins segja að Rússar séu í sífellu að fjölga hermönnum á svæðinu, vopnum og öðrum búnaði. 

Rússneskum hersveitum hefur tekist að umkringja bæinn í hörðum og blóðugum bardögum sem hafa geisað undanfarna daga. 

Talsmenn Úkraínuhers segja að það sé orðið flókið að koma birgðum til bæjarins og aðstoða þá íbúa, sem hafast enn við í bænum, við að koma þeim í öruggt skjól. 

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í lok janúar að rússneskum hermönnum hefði tekist að komast að útjaðri borgarinnar. Þá hafa Rússar náð mikilvægum vegi á sitt vald. 

Hart hefur verið barist í og við Avdiivka þar sem …
Hart hefur verið barist í og við Avdiivka þar sem Rússar hafa sótt fram. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert