Navalní virtist sprækur í gær

Mótmælendur krefjast að Pútín komi fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn í Hag …
Mótmælendur krefjast að Pútín komi fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn í Hag í kjölfar frétta um andlát Alexei Navalní AFP/John MacDougall

Ríkisfjölmiðlar í Rússlandi segja að Alexei Navalní hafi ekki virst þjást af neinum líkamlegum kvillum þegar hann kom fyrir rétt þar í landi í gær í gegnum myndsímtal.

Í símtalinu hafi Navalní ekki kvartað undan heilsufari sínu heldur haldið fram málsvörn sinni af miklum krafti. Þetta frétti rússneska fréttaveitan RIA frá héraðsdómstóli í borginni Vladimir, sem er austan Moskvu.

Virtist við góða líkamlega heilsu

Lögfræðingur Navalní, sem er þýskur, segir hann hafa verið við góða líkamlega heilsu í gær. Aðeins degi síðar var hann úrskurðaður látinn í fangabúðum á norðurslóðum. Lögfræðingurinn segist alveg gáttaður á fréttunum, einkum eftir að hafa séð skjólstæðing sinn taka þátt í réttahöldunum yfir sér í gær.

„Hann virtist í góðu formi og sterkur eins og vanalega,“ sagði lögfræðingurinn Nikolaos Gazeas. Hann sagði samstarfsmann sinn hafa heimsótt Navalní á miðvikudaginn og að annar á hans vegur væri á leið í fangelsið til þess að kynna sér betur kringumstæður andláts Navalnís.

Gazeas vildi ekki tjá sig frekar um málið af tillitssemi við fjölskyldu hins látna.

Handtekinn eftir sjúkrameðferð í Þýskalandi

Alexei Navalní hefur verið einarður andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta til margra ára og hefur náð að efna til fjölmennra mótmæla á götum úti gegn forsetanum, þótt viðurlög við slíku séu hörð þar í landi.

Navalní var varpað í fangelsi árið 2021 þegar hann sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi. Hann hafði verið í Þýskalandi til lækninga eftir að hafa nær verið drepinn af taugaeitrinu Novichok, sem Sovétmenn hönnuðu á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert