Júlía Navalnaja hafði ekki séð eiginmann sinn Alexei í tvö ár er hann lést í rússneskri fanganýlendu í fyrradag. Sama dag og fréttir bárust af andlátinu ávarpaði hún blaðamenn á öryggisráðstefnu í Munchen í Þýskalandi.
„Ef þetta er satt, þá vil ég að Pútín og teymið hans, vinir Pútíns og ríkisstjórn hans viti að þau munu bera ábyrgð á því sem þau gerðu við landið okkar, fjölskylduna mína og eiginmann minn,“ sagði Júlía með tárin í augunum.
„Og þessi dagur verður bráðlega.“
Parið kynntist í fríi í Tyrklandi og giftu sig árið 2000. Saman eiga þau dótturina Daríu Navalnaja og soninn Zakhar.
Í janúar árið 2021 var Navalní handtekinn strax við komuna til Rússlands, en hafði þá ekki komið til heimalandsins í nokkra mánuði eftir að eitrað var fyrir honum.
Júlía reyndi að skrifa honum bréf á hverjum einasta degi í þessi tvö ár.
Síðustu skilaboðin sem Navalní sendi á eiginkonu sína opinberlega birtust á Valentínusardaginn, tveimur dögum áður en hann lést.
„Mér líður eins og þú sért með mér á hverju einasta augnabliki,“ ritaði Navalní.
Fyrsta færslan sem Júlía birti á samfélagsmiðlum eftir að fregnir af andlátinu bárust var mynd af þeim saman og með stóð: „Ég elska þig“.