„Ef þú verður drepinn, ef það gerist, hvaða skilaboð viltu skilja eftir fyrir rússnesku þjóðina.“ Á þessari spurningu hefst Óskarsverðlaunamyndin Navalny, um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, sem kom út árið 2022.
„Nei hættu nú Daniel,“ svarar Navalní spurningu kanadíska leikstjórans Daniel Roher. „Ekki séns. Það er eins og þú sért að búa til kvikmynd um dauða minn.“
Navalní lést í fyrradag í fanganýlendu fyrir norðan heimskautsbaug, þar sem hann var að afplána nítján ára fangelsisdóm. Rússnesk yfirvöld greindu frá því að hann hefði veikst skyndilega eftir göngutúr og látist í kjölfarið.
Navalní var varpað í fangelsi í Rússlandi árið 2021 þegar hann sneri aftur til landsins frá Þýskalandi. Heimildarmyndin fylgist með aðdraganda þeirrar örlagaríku ferðar og er möguleikinn á yfirvofandi dauða Navalnís rauður þráður í gegnum myndina.
Roher sagði í samtali við BBC að þrátt fyrir hætturnar sem biðu Navalní í Rússlandi væri hann enn í algjöru áfalli að heyra af andláti vinar síns.
„Mér brá þegar ég heyrði fréttirnar, þrátt fyrir að öllum sem horfa á myndina eigi ekki að bregða. Þetta á ekki að koma svo mikið á óvart,“ sagði Roher sem lýsti því í viðtalinu hvernig vinskapur hans og Navalní þróaðist við gerð heimildarmyndarinnar.
Roher sagði að Navalní hefði verið mikill húmoristi og elskaði að hlæja. Efni heimildarmyndarinnar er þó alvarlegt og sagði leikstjórinn að tökur á myndinni hefðu ekki alltaf verið dans á rósum.
„Það voru augnablik sem voru frekar taugatrekkjandi þegar ég þurfti að spyrja hann að óþægilegum hlutum. Meira að segja fyrsta spurningin í kvikmyndinni... Það eru mjög óþægilegar spurningar en ég var þarna fyrst og fremst til þess að búa til kvikmynd,“ sagði Roher.
Eftir að Navalní fór í fangelsi skiptust hann og Roher á bréfum.
„Ég er mjög ánægður með að eiga þau enn í dag. Ég geymi þau á skrifstofunni minni og mun þykja vænt um þau að eilífu.“
Í lok myndarinnar spyr Roher aftur hvaða skilaboð Navalní hefði fyrir rússnesku þjóðina ef hann léti lífið í rússnesku fangelsi.
Navalní svarar þá stuttlega á ensku áður en Roher biður hann um að svara á rússnesku.
„Við áttum okkur ekki á því hversu sterk við erum í raun og veru. Það eina sem er nauðsynlegt fyrir hið illa að sigra er ef gott fólk gerir ekkert. Svo ekki vera aðgerðarlaus.“
Roher sagði myndina hafa breytt lífi sínu. „Hún hafði svo djúpstæð áhrif á mig sem manneskju,“ sagði hann og bætti við að líf Navalnís hefði verið leiðarvísir í hugrekki og seiglu.