Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní var tákn vonar um bjartari framtíð fyrir Rússland. Von um betra líf fyrir Rússa er nú lítil.
Þetta segir rússnesk kona í samtali við AFP um óvænt andlát Navalní. Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá viðtal við þrjá Rússa sem greina frá því hvað andlát Navalní þýði fyrir rússnesku þjóðina.
Navalní lést í fyrradag í fanganýlendu fyrir norðan heimskautsbaug, þar sem hann var að afplána nítján ára fangelsisdóm. Honum var varpað í fangelsi árið 2021 þegar hann sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi. Hann hafði verið í Þýskalandi til lækninga eftir að hafa nær verið drepinn af taugaeitrinu Novichok, sem Sovétmenn hönnuðu á sínum tíma.
Rússnesk stjórnvöld segjast hafa lokið rannsókn á andláti Navalní. Þau segja ekkert saknæmt við andlát hans hafa komið í ljós.