Áhöfn yfirgefur skip eftir árás Húta

Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni með beinum …
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni með beinum hætti. AFP

Áhöfn breska flutningaskipsins The Rubymar, sem siglir undir Belís-fána, hefur yfirgefið skipið rétt fyrir utan strendur Jemen eftir að hafa orðið fyrir flugskeytaárásum Húta. 

Samkvæmt fréttastofu BBC var skipið á siglingu í gegnum Edenflóa og var að nálgast Bab el-Mandab-sundið við Jemen og Djíbútí, en flutningaskip þurfa að leggja leið sína í gegnum sundið til að komast að Súesskurðinum og þaðan að Miðjarðarhafinu.  

Bresk yfirvöld staðfestu að áhöfn ónafngreinds skips hefðu fengið tilmæli um að yfirgefa skipið. Öryggisfyrirtæki Rubymar, LSS Sapu, staðfestir að skipið hafi orðið fyrir tveimur flugskeytaárásum.

Skipið orðið fyrir „skelfilegu tjóni“

Talsmaður Húta fullyrti að skipið hefði orðið fyrir „skelfilegu tjóni“ og ætti á hættu að sökkva. Árásir Húta á flutningaskip í Rauðahafinu og Edenflóa hafa verið ófáar síðan í nóvember og hefur skipaumferð á svæðinu fækkað allverulega af öryggisástæðum. 

Hútar segja árásir sínar vera til stuðnings Palestínumönnum í ljósi hernaðaraðgerða Ísraelsmanna á Gasasvæðinu.

Bandarískar og breskar hersveitir hófu gagnárásir víðs vegar í vesturhluta Jemen, sem er undir stjórn Húta, í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert