Sparkaði í son sinn og hélt höfði hans undir vatni

YouTube-stjarnan Ruby Franke.
YouTube-stjarnan Ruby Franke. Instagram/moms_of_truth

Ruby Franke, bandarískur áhrifavaldur og sex barna móðir, hefur verið dæmd í allt að 30 ára fangelsi, eftir að hafa viðurkennt að hafa beitt börnin sín bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Franke hafði m.a. sannfært tvö yngstu börnin sín um að þau væru ill og andsett, og að þeim þyrfti að refsa.

Franke var handtekin á síðasta ári vegna gruns um barnaníð eftir að særður og vannærður tólf ára sonur hennar flúði heimili samstarfskonu móður sinnar og sótti hjálp hjá nágrönnum.

Sky news greinir frá.

Gaf foreldrum uppeldisráð

Það kom mörgum fylgjendum Franke á óvart þegar málið rataði fyrst í fjölmiðla enda var hún þekkt fyrir að deila uppeldisráðum á samfélagsmiðlareikningum sínum. Hélt hún m.a. úti blogginu 8 Passengers á YouTube.

Jodi Nan Hildebrandt, samstarfskona Franke, var einnig handtekin og játuðu þær báðar fyrir dómi að hafa beitt börn ofbeldi.

Hélt höfði sonar síns undir vatni

Franke viðurkenndi m.a. að hafa sparkað í son sinn, haldið höfði hans undir vatni og lokað fyrir bæði munn hans og nef með höndum.

Franke og Hildebrandt játuðu báðar að hafa neytt drenginn til að stunda líkamlega erfiða vinnu í miklum hita yfir sumarið. Drengurinn fékk lítið að borða og drekka á meðan vinnunni stóð og fékk blöðrur eftir sólbruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert