Vísa ásökunum ekkjunnar á bug

Júlía Navalnaja.
Júlía Navalnaja. AFP/Yves Herman

Rússnesk stjórnvöld hafa vísað á bug ásökunum ekkju stjórnarandstöðuleiðtogans Alexeis Navalní, sem lést í fangelsi í síðustu viku, um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti standi á bak við dauða hans.

„Að sjálfsögðu eru þetta ruddalegar ásakanir sem eru algjörlega úr lausu lofti gripnar gegn yfirmanni rússneska ríkisins. En ef ég tek með í reikninginn að Júlía Navalnaja varð ekkja fyrir nokkrum dögum síðan ætla ég ekki að tjá mig frekar,” sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP/Alexander Ryumin

Peskov vísaði einnig á bug kröfu Evrópusambandsins um „alþjóðlega rannsókn” á dauða Navalnís eftir að Navalnaja ræddi við Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins.

„Við hlustum ekki á slíkar kröfur almennt séð, hvað þá frá herra Borrell,” sagði Peskov.

Spurður út í þann fjölda fólks sem hefur verið handtekinn á minningarathöfnum um Navalní síðustu daga sagði Peskov að lögreglan væri einfaldlega að framfylgja lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka