Fjöldi manna lét lífið þegar náma hrundi

Náma hrundi í afskekktum frumskógi í suðurhluta Venesúela.
Náma hrundi í afskekktum frumskógi í suðurhluta Venesúela. AFP

Hrun ólöglegrar námu í afskekktum frumskógi í suðurhluta Venesúela gæti hafa orðið allt að 25 manns að bana.

Atvikið átti sér stað í námu í Bólivar-fylki en sjö klukkutíma bátsferð er til næsta bæjar, La Paragua, þar sem fjölskyldumeðlimir biðu fregna af ástvinum sínum.

Bæjarstjórinn í Angostura sagði 25 látna og 15 slasaða en að nákvæm tala lægi þó ekki fyrir.

Áður hafði Edgar Colina Reyes, öryggisráðherra Bólivar-fylkis, greint frá því að tveir hefðu látið lífið og tveir slasast. 

Reyes sagði að hinir slösuðu hefðu verið fluttir á sjúkrahús í svæðishöfuðborginni Ciudad Bolivar, fjórum klukkustundum frá La Paragua, sem er 750 kílómetra suðaustur af höfuðborginni Caracas.

Hinir látnu voru fluttir með báti til La Paragua.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert