Ísraelsher notar norskar sprengjuvörpur

Ísraelskur hermaður á mynd sem ísraelski herinn birtir á heimasíðu …
Ísraelskur hermaður á mynd sem ísraelski herinn birtir á heimasíðu sinni. Sérfræðingar telja víst að þarna sé á ferð sprengjuvarpan M72, framleiðsla norska vopnaframleiðandans Nammo. Ljósmynd/Ísraelsher

Samtökin Barnaheill í Noregi, Redd Barna, segja það algjörlega óviðunandi að ísraelskir hermenn noti framleiðslu norska vopnaframleiðandans Nammo í átökum sínum á Gasasvæðinu. Krefjast samtökin þess að norsk stjórnvöld seti Ísraelsher stólinn fyrir dyrnar hvað þetta varðar.

„Það er algjörlega óviðunandi að vopnum, sem norskt fyrirtæki framleiðir, hafi hugsanlega verið beitt í þessum hryllilegu árásum á almenna borgara á Gasa þar sem þúsundir barna hafa týnt lífi sínu,“ segir Mads Harlem, ráðgjafi og lögmaður Barnaheilla, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Harlem bendir á myndefni frá ísraelska hernum á heimasíðu hans þar sem sjá má hermann munda M72-sprengjuvörpu sem Nammo framleiðir í verksmiðju sinni í Raufoss í Noregi en einnig í bandarískri verksmiðju þess í Mesa í Arizona.

Rætt á Stórþinginu

Dagbladet hefur enn fremur fjallað um vopn frá norskum vopnaframleiðendum sem hafnað hafa í Ísrael og hefur málið verið til umræðu á norska Stórþinginu þar sem flokkarnir Rautt og Sósíalíski vinstriflokkurinn hafa báðir tekið það upp á sína arma og krafist upplýsinga um kaupendur norskra vopna – einnig í bandalagsríkjum Noregs.

„Við getum ekki búið við regluverk sem heimilar að framleiðsla frá Nammo sé notuð við stríðsglæpi á Gasasvæðinu,“ sagði Sofie Marhaug þingmaður Rauðs þegar málið var rætt í þinginu.

Ísraelska dagblaðið Haaretz hefur fengið að sjá skjöl frá bandaríska …
Ísraelska dagblaðið Haaretz hefur fengið að sjá skjöl frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu sem sýna að Ísraelsher spurðist í fyrra fyrir um sprengjuvörpur af gerðunum M72 og M141 en sú síðarnefnda sést á þessari mynd. Ljósmynd/Nammo

Krefjast Barnaheill í Noregi þess nú að norsk stjórnvöld beiti sér gegn notkun norskra vopna gegn almennum borgurum og tryggi til frambúðar að slík beiting þeirra komi ekki fyrir.

Talsmenn Nammo biðjast undan viðtali við NRK en svara því til í tölvupósti að fyrirtækið selji engin vopn til Ísraels.

Ísraelar spurðust fyrir

Engu að síður hefur framleiðsla þeirra með einhverju móti komist í hendur Ísraelshers, það staðfestir Palle Ydstebø, ofursti í norska hernum, við NRK og segir Nammo eina framleiðandann sem framleiði M72-sprengjuvörpuna. „Hvort hún sé framleidd í Noregi eða verksmiðjum Nammo erlendis veit ég ekki,“ segir hann um sprengjuvörpuna sem Harlem sýndi NRK á vefsíðu Ísraelshers.

Ísraelska dagblaðið Haaretz hefur fengið aðgang að skjölum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu sem staðfesta að Ísraelar spurðu bandaríska hergagnaframleiðendur út í annað vopn úr smiðju Nammo í fyrra, sprengjuvörpuna M141 sem einkum er beitt gegn steinsteyptum byggingum og byrgjum auk brynvarðra ökutækja.

Segir Ydstebø ofursti að honum kæmi það ekki á óvart að Ísraelar föluðust eftir kaupum á fleiri M72- og M141-sprengjuvörpum frá Bandaríkjunum. „Þessi vopn eru mjög áhrifarík í þeim hernaði sem Ísraelar beita nú gegn Hamas-samtökunum [...]. Það eru einmitt vopn af þessu tagi sem Ísraelar þarfnast nú,“ segir ofurstinn.

NRK

Dagbladet

Haaretz

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert