Commander, fjölskylduhundur Joe Bidens Bandaríkjaforseta, beit starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar að minnsta kosti 24 sinnum, bæði í Hvíta húsinu og á öðrum stöðum.
CNN greinir frá.
Áður hefur verið fjallað um að Commander, sem er þýskur fjárhundur, hafi bitið stjórnendur og aðra starfsmenn Hvíta hússins.
Málið virðist þó vera mun umfangsmeira og alvarlegra en áður var talið, að því er fram kemur í nýjum gögnum sem CNN hefur undir höndunum.
Sem dæmi hefur starfsfólk Hvíta hússins markvisst forðast að vera í návígi við Commander af hræðslu við að verða bitið.
„Hundsbitin sem hafa nýlega komið upp hafa orðið til þess að við höfum þurft að breyta hvernig við störfum þegar Commander er nálægt. Vinsamlegast gefðu mikið pláss,“ skrifaði einn starfsmaður til samstarfsfélaga sinna í tölvupósti í júní á síðasta ári. Þannig varaði hann aðra starfsmenn við Commander á sama tíma og hann hvatti þá til þess að tryggja eigið öryggi.
Þessi viðvörun kom nokkrum mánuðum áður en Commander var fjarlægður úr Hvíta húsinu og átti hundurinn eftir að bíta fólk oftar í millitíðinni.
CNN hefur farið yfir meira en 270 blaðsíður af skjölum um málið og hafði verið átt við nokkur þeirra til að halda nafnleynd starfsmanna. Í skjölunum er greint frá fjölda kvartana og áhyggna vegna ástandsins, þar sem varað er við því að illa geti farið.
Þar segir jafnframt að Biden-fjölskyldan sé miður sín yfir árásum hundsins og að þau hafi beðið þá sem bitnir voru afsökunar.
Þá segir að fjölskyldan hafi ítrekað reynt að ná tökum á ástandinu með því að fá til liðs við sig hundaþjálfara, dýralækna og hundaatferlisfræðinga, umhverfi Hvíta hússins hafi hins vegar reynst of mikið fyrir Commander sem hefur búið hjá öðrum fjölskyldumeðlimum síðan í haust.