„Við höfum brjálaða tíkarsyni eins og Pútín, og aðra, og við þurfum alltaf að hafa áhyggjur af kjarnavopnaátökum, en tilvist mannkyns stafar ógn af loftslaginu.“
Þetta sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á fjáröflunarviðburði í San Francisco í gær.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Biden gagnrýnir Vladimír Pútín Rússlandsforseta opinberlega frá því hann skipaði fyrir um innrás hers síns í Úkraínu fyrir tveimur árum.
Áður hefur Biden kallað Pútín „stríðsglæpamann“ og „slátrara“.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns, segir ummæli Bidens vera bandarísku þjóðinni til skammar.
Á morgun munu Bandaríkin kynna nýjar refsiaðgerðir gegn Rússlandi og á með því að bregðast við fráfalli stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní í rússnesku fangelsi.