Karlmaður sem grunaður er um að hafa orðið ellefu ára stúlku að bana í Texas í Bandaríkjunum gæti átt yfir höfði sér dauðarefsinguna verði hann sakfelldur.
Don Steven McDougal, maðurinn sem um ræðir, var fjölskylduvinur stúlkunnar, Audrii Cunningham, en hefur nú verið ákærður fyrir morðið á henni. Fer ákæruvaldið fram á dauðarefsinguna.
CNN greinir frá.
Myndskeið og gögn úr farsímum staðsetja McDougal m.a. við árbakka Trinity-árinnar þar sem Audrii fannst látin á þriðjudag.
McDougal, sem var þegar í varðhaldi vegna ótengds máls, var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Verður hann ekki látinn laus gegn tryggingargjaldi.
Lögreglan segir McDougal hafa samþykkt að fylgja Audrii í skólabílinn morguninn sem hún hvarf. Stúlkan komst þó aldrei í skólann. Er McDougal sagður hafa sagt ósatt um ferðir sínar þann sama dag.
Stór steinn var bundinn við Audrii þar sem hún fannst við Trinity-ána. Var reipið sem var notað í verkið svipað og reipi sem sást í bíl McDougals tveimur dögum fyrir hvarf stúlkunnar.