Ljúdmíla Navalnaja, móðir rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans Alexei Navalnís, segist loks hafa fengið að sjá lík sonar síns og að rússnesk yfirvöld þrýsti á hana til að halda útför hans í kyrrþey.
Frá þessu greindi hún í myndvarpsávarpi. BBC greinir frá.
Ljúdmíla Navalnaja segist hafa verið boðuð á líkhús þar sem hún undirritaði dánarvottorð sonar síns.
Í ávarpinu segir hún að lögum samkvæmt ættu yfirvöld að afhenda henni lík sonar síns, en að þau neiti að gera það.
Þá fullyrti hún að yfirvöld væru að taka fram fyrir hendur hennar og ætli sér að ákveða staðsetningu, tímasetningu og hátterni útfararinnar.
Móðir Navalnís ferðaðist til fanganýlendunnar þar sem að sonur hennar var geymdur stuttu eftir að fregnir bárust af dauða hans.
Hún segir yfirvöld í Rússlandi hóta sér:
„Þau litu í augun á mér og sögðu að ef ég héldi ekki jarðaförina í kyrrþey þá myndu þau gera eitthvað við lík sonar míns.“
Hún endaði ávarpið með því að kalla eftir því að yfirvöld afhendi henni lík sonar síns.
Yfirvöld í Rússlandi hafa enn sem komið er ekki svarað ásökunum hennar.
Rússneski stjórnmálafræðingurinn, Tatiana Stanovaya segir að ákvörðun stjórnvalda að sýna móður Navalnís líkið hafa verið gert til þess að fá hana að samningaborðinu.
Ekkja Navalnís hefur sakað yfirvöld í Rússlandi um að hafa myrt Navalní, en yfirvöld í Rússlandi hafa vísað ásökunum á bug.