Ódysseifur lentur á tunglinu

Tunglfarið Ódysseifur nálægt tunglinu.
Tunglfarið Ódysseifur nálægt tunglinu. AFP

Tunglfarið Ódysseifur, sem er í eigu einakafyrirtækisins Intuitive Machines í Bandaríkjunum, lenti á suðurpól tunglsins fyrir stundu eftir 420 þúsund kílómetra ferðalag en því er ætlað að rannsaka yfirborð tunglsins í eina viku.

Tunglfarinu, sem er ómannað, var skotið á loft frá Cape Canaveral í Flórída þann 14. febrúar og var um braut um tunglið í gær. Það ber búnað sem verður notaður til rannsóknar fyrir bandarísku geimferðarstofnunina NASA en vísindamenn vona að á suðurpól tunglsins gæti leynst uppspretta vatns.

Það er liðin hálf öld síðan bandarískt geimfar lenti síðast á tunglinu. Það var Apollo 17 árið 1972 en tilraun einkafyrirtækisins Astrobotic í síðasta mánuði misheppnaðist.

NASA hefur valið 13 staði umhverfis suðurpólinn sem það gæti sent geimfara síðar á þessum áratug. Fyrsta lending áhafnar verður ekki fyrr en árið 2026.

Á suðurpól tunglsins er almennt mjög gróft landslag með stórum fjallgörðum og djúpum gígum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert