Samþykkja umfangsmiklar refsiaðgerðir gegn Rússum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lætur Pútín heyra það.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lætur Pútín heyra það. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag um refsiaðgerðir gagnvart ríflega 500 skotmörkum í Rússlandi, nú þegar tvö ár eru liðin frá því Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Biden heitir því að stöðugur þrýstingur muni stöðva stríðsvél Pútíns Rússlandsforseta. 

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að þetta séu umfangsmestu stöku refsiaðgerðirnar gagnvart Rússum frá því stríðið hófst. Markmiðið er að láta rússnesk yfirvöld finna fyrir dauða stjórnarandstæðingsins Alexei Navalnís, en hann lést í fangelsi í síðustu viku. Hann var einn helsti andstæðingur og gagnrýnandi Pútíns. 

Biden segir að aðgerðirnar, sem eru yfir 500 talsins og verða kynntar nánar síðar í dag, muni beinast gegn einstaklingum sem komu að því að fangelsa Navalní. Auk þess beinist aðgerðirnar gegn fjármálakerfi Rússlands, vopnaiðnaði og greiðslugáttum. Þá munu þvinganirnar beinast gegn einstaklingum í mörgum heimsálfum. 

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést í síðustu viku.
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést í síðustu viku. AFP

Pútín greiði hærra verð

„Þær munu tryggja að Pútín greiðir enn hærra verð fyrir árásargirni sína erlendis og fyrir kúgunina heimafyrir.“

Þá segir Biden að bandarísk stjórnvöld muni setja á útflutningstakmarkanir á hátt í 100 aðila fyrir að styðja stríðsvél Rússa í gegnum bakdyr. 

Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa samþykkt fjölmargar efnahagsþvinganir og refsiaðgerðir gegn Rússum frá því stríðið hófst. Þeir hafa m.a. fryst fjármuni, dregið úr útflutningi á hátæknibúnaði og sett verðþak á rússneskan olíuútflutning. 

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Dregið úr hernaðarlegum stuðningi 

Aftur á móti hefur dregið mikið úr hernaðarlegum stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu vegna deilna á milli demókrata og repúblikana á þingi. Á sama tíma hefur rússneska hernum vaxið ásmegin og hann náð að sækja fram á fremstu víglínu. 

Fram kemur í umfjöllun AFP, að reiknað sé með að hagkerfi Rússlands muni halda áfram að vaxa á þessu ári, en þó hægar en áður, en Rússar hafa þurft að aðlaga sig breyttum aðstæðum og treyst á viðskipti við önnur ríki sem tilheyra ekki Vesturveldunum. Þá horfa menn einna helst til Kína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert