Afhenda lík Navalnís

Móðir Navalnís hefur barist fyrir því að fá lík sonar …
Móðir Navalnís hefur barist fyrir því að fá lík sonar síns úr höndum yfirvalda í Rússlandi. AFP/Odd Andersen

Ljúdmíla Navalnaja, móðir rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís heitins, hefur fengið afhent lík sonar síns. Frá þessu greinir Kíra Yarmysh talsmaður Navalnís á samfélagsmiðlinum X.

Yfirvöld í Rússlandi hótuðu í gær að jarða Navalní í fanganýlendunni þar sem hann lést, yrði fjölskylda hans ekki við því að halda jarðarför hans í kyrrþey.

Nú virðist sem þeim hafi snúist hugur. Yarmysh þakkar þeim stuðninginn sem þrýstu á að Navalnaja fengi lík sonar síns í hendurnar.

Óvíst um afskipti af jarðarför

Ekki er komið í ljós hvernig jarðarför Navalnís verður háttað.

„Við vitum ekki hvort að yfirvöld munu reyna að skipta sér af því hvernig fjölskyldan mun hafa jarðarförinni, sem verður gert eins og Alexei átti skilið. Við látum ykkur vita um leið og fregnir berast,“ segir í færslu Yarmysh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka