G7 ríkin kalla eftir skýringum rússneskra stjórnvalda á andláti stjórnarandstæðingsins Alexei Navalnís.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna.
Navalní var að afplána fangelsisdóm á fanganýlendu norðan heimskautsbaug þegar hann lést í síðustu viku.
Að sögn rússneskra fangelsismálayfirvalda varð Navalní veikur föstudagsmorgun og lést skömmu síðar þann sama dag. Þykir sú útskýring ótrúverðug og hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti verið sagður á bakvið fráfall stjórnarandstæðingsins.
„Við köllum eftir því að rússnesk stjórnvöld skýri fyllilega kringumstæðurnar við andlát hans,“ segir í yfirlýsingu G7 ríkjanna, sem telja Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland og Bandaríkin.
Yfirlýsingin birtist einungis örfáum klukkustundum eftir að tilkynnt var að móðir Navalnís hefði fengið lík hans afhent. Rússnesk stjórnvöld höfðu neitað beiðni hennar og hótað að jarða Navalní við fangelsið.
„Við minnumst einnig ótrúlega hugrekkis Alexei Navalnís og stöndum með eiginkonu, börnum og ástvinum hans,“ kemur þar einnig fram.
„Hann fórnaði sér í baráttunni gegn spillingu Kremlverja og fyrir frjálsum og sanngjörnum kosningum í Rússlandi.“