Tvö ár af stríði og sorg

Vinir og vandamenn sjást hér syrgja við útför þriggja sem …
Vinir og vandamenn sjást hér syrgja við útför þriggja sem fórust í eldflaugaárás Rússa á borgina Kramatorsk á fimmtudaginn. AFP/Anatolii Stepanov

Tvö ár eru í dag frá því að Rússar hófu allsherjarinnrás sína í Úkraínu. Innrásin hefur haft hrikalegar afleiðingar fyrir almenning í Úkraínu, en áætlað er að minnst 10.000 óbreyttir borgarar hafi farist og tæplega 20.000 særst af völdum hennar á þeim tveimur árum sem liðin eru frá upphafi hennar.

Þá er áætlað að um sex milljónir manna hafi flúið Úkraínu vegna stríðsins til hinna ýmsu ríkja Evrópu. Fyrr í vikunni var greint frá því að 3.961 Úkraínubúi hefði fengið vernd hér á landi, og er rætt við nokkra þeirra í blaðinu í dag og í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nokkur bjartsýni ríkti fyrir ári, þar sem Úkraínumönnum hafði tekist að reka Rússa frá Kænugarði, en boðuð gagnsókn þeirra um sumarið 2023 náði ekki flugi. Fall Avdívka á dögunum hefur síðan ýtt undir svartsýnisraddir, auk þess sem pólitískar þrætur í Bandaríkjunum hafa sett strik í hergagnaflutninga vesturveldanna til Úkraínu.

Margeir Pétursson, sem búsettur er í Lvív, segir að fyrir ári hafi ríkt allt of mikil bjartsýni um að Úkraínumenn gætu knúið fram sigur í stríðinu, en að nú séu menn allt of svartsýnir fyrir þeirra hönd. „En því miður lítur ekki út fyrir annað en að þetta verði langvinnt stríð,“ segir Margeir.

Hann segir engan endi í sjónmáli og engan vilja hjá Úkraínumönnum að hætta að berjast. „Hér er sagt að ef þeir hætti að berjast verði engin Úkraína, menn eiga hér engra kosta völ,“ segir Margeir og bætir við að ekki sé hægt að treysta neinum samningum við Rússa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert