Ísraelsher ætlar að flytja almenna borgara á brott

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Ronen Zvulun

Ísraelsher hefur lagt fram áætlun um brottflutning almennra borgara frá „bardagasvæðum” á Gasasvæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

Netanjahú hefur talað um að hernaður á jörðu niðri á svæði Palestínumanna í borginni Rafah á suðurhluta Gasasvæðisins sé nauðsynlegur.

Erlendar ríkisstjórnir og hjálparstofnanir hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum vegna innrásar í Rafah og þeim fjölda almennra borgara sem gæti fallið.

Ung stúlka heldur á mat í borginni Rafah í gær.
Ung stúlka heldur á mat í borginni Rafah í gær. AFP/Said Khatib

Yfir 1,4 milljónir Palestínumanna, flestir á flótta, hafa safnast saman í Rafah og þangað hafa hermenn Ísraels á jörðu niðri ekki farið hingað til.

Neyðaraðstoð hefur einnig borist þangað í gegnum nágrannaríkið Egyptaland.

Í yfirlýsingu Ísraela í morgun kemur fram að Ísraelsher hafi kynnt fyrir yfirvöldum áætlun um brottflutning fólks frá bardagasvæðum á Gasasvæðinu. Ekkert kemur fram um hvert á að flytja fólkið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert