Ungverska þingið samþykkti í dag umsókn Svía um aðild að Atlantshafsbandalaginu NATO og leið Svía þar með greið inn í sambandið sem þeir sóttust eftir aðild að í kjölfar þess er Rússar fóru með oddi og egg að nágrannaríki sínu Úkraínu.
Hafa sænsk stjórnvöld þar með mátt sæta eins árs töf á afgreiðslu umsóknar sinnar sem strandaði á stífni Tyrkja og Ungverja, en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hafði horn í síðu Svía fyrir að neita að framselja „kúrdíska hryðjuverkamenn“ til Tyrklands. Samþykktu Tyrkir þó eftir dúk og disk í janúar og nú Ungverjar.
Kallaði sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson daginn „sögulegan“ en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði Svíþjóð mundu gera bandalagið „sterkara og öruggara“.
Féllu atkvæði þannig á ungverska þinginu að 188 þingmenn greiddu atkvæði með aðildarumsókn Svía en sex voru henni andsnúnir.
Biðlaði Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, í morgun til þingheims að samþykkja umsókn Svía og sagði hernaðarsamstarf Svíþjóðar og Ungverjalands verða til þess að styrkja Ungverja í öryggislegu tilliti.