Engar áætlanir eru uppi hjá Atlantshafsbandalaginu, NATO, um að senda hermenn til Úkraínu til að berjast á jörðu niðri.
Embættismaður bandalagsins greindi frá þessu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagðist ekki vilja útiloka slíkan hernað í ræðu sem hann hélt í gær.
„NATO og bandalagsríki útvega stuðning sem ekki á sér fordæmi til að hjálpa Úkraínu,” sagði embættismaðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið.
„En það eru engar áætlanir uppi hjá NATO um að senda hermenn til að berjast á jörðu niðri í Úkraínu,” bætti hann við.
Talsmaður forsætisráðherra Breta hafði sömu sögu að segja á blaðamannafundi í morgun.
„Bretland er nú þegar með lítinn mannskap í landinu sem styður við úkraínska hermenn, þar á meðal vegna þjálfunar í tengslum við læknisaðstoð,” sagði talsmaður Rishi Sunak.
„Við höfum engar áætlanir um að flytja þangað hermenn í stórum stíl,” bætti hann við.