Svíar sjá ekki fyrir sér að senda hermenn til Úkraínu til að berjast á jörðu niðri gegn Rússum.
„Það er ekki á planinu þessa stundina,“ sagði Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT í dag.
Með ummælunum var Kristersson að bregðast við ummælum Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem sagði í gær að vestrænir leiðtogar ættu ekki að útiloka að senda hermenn til Úkraínu til að berjast á jörðu niðri og aðstoða þannig Úkraínu við að sigra innrásarher Rússa.
„Í augnablikinu erum við á fullu að senda háþróaðan herbúnað til Úkraínu,“ sagði Kristersson.
Þá segir Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, það ekki í þágu vestrænna ríkja að senda hermenn til Úkraínu.
„Þetta er alls ekki í þágu þessara landa, þau ættu að vera meðvituð um það,“ sagði Peskov þegar hann var spurður út í ummæli Macron. Pescov bætti því þó við að umræða um að senda hermenn til Úkraínu væri „mjög mikilvægur nýr þáttur“ í umræðunni.