Útilokar ekki að senda hermenn til Úkraínu

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir ekki útilokað að sendir verði hermenn frá Vesturlöndum til Úkraínu til að berjast á jörðu niðri gegn Rússum.

Í ræðu sem hann hélt á fundi á þriðja tug evrópskra leiðtoga vegna málefna Úkraínu málaði Macron dökka mynd af Rússum. Hann sagði stöðu þeirra verða sífellt harðari bæði heima fyrir og á vígvellinum.

„Við erum sannfærð um að ósigur Rússlands sé nauðsynlegur fyrir öryggi og stöðugleika í Evrópu,” sagði Macron og bætti við að viðhorf Rússa væri ágengara en áður, ekki eingöngu í Úkraínu heldur almennt séð.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti á blaðamannafundi í gær.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti á blaðamannafundi í gær. AFP/Gonzalo Fuentes

Macron sagði ekkert samkomulag hafa náðst um að senda vestræna hermenn til Úkraínu en bætti við að ekki mætti útiloka það. „Við munum gera það sem nauðsyn krefur til að tryggja að Rússar vinni ekki þetta stríð,” sagði hann en vildi ekkert frekar tjá sig um afstöðu Frakka í málinu.

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, sagði sum ríki ESB og NATO vera að íhuga þennan möguleika.

Kona á gangi með barnið sitt í Dónetsk-héraði í Úkraínu …
Kona á gangi með barnið sitt í Dónetsk-héraði í Úkraínu á sunnudaginn eftir loftárás Rússa. AFP/Anatoli Stepanov
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert