Forgangsatriði að verja Transnistríu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Rússnesk stjórnvöld segja það eitt af þeirra forgangsatriðum að verja landræmuna Transnistríu, sem liggur innan Moldóvu og að suðvesturlandamærum Úkraínu.

Transnistría hefur lotið stjórn aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum, allt frá því Sovétríkin féllu. Á alþjóðavísu er hún aftur á móti viðurkennd sem hluti af Moldóvu.

Boðað var til sérstaks þings í dag, þess sjöunda í sögu héraðsins, og samþykktu samankomnir fulltrúar að biðja rússneska þingið að „verja“ Transnistríu frá því sem þeir segja aukinn þrýsting af hálfu moldóvskra yfirvalda.

Segjast skoða allar beiðnir

Ákallið kemur aðeins degi fyrir árlega ræðu Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sem hann flytur fyrir rússnesku löggjafarsamkunduna.

Utanríkisráðuneytið í Moskvu hefur svarað og kveðst taka „allar beiðnir“ til skoðunar.

„Að verja hagsmuni íbúa Transnistríu, samlanda okkar, er eitt af okkar forgangsatriðum,“ hafa rússneskir miðlar eftir ráðuneytinu.

1.500 her­menn frá Rússlandi

Um 1.500 her­menn Rússa eru með var­an­lega setu í héraðinu, í því sem Kreml kall­ar friðargæslu­verk­efni.

Lang­flest­ir íbú­ar Transn­i­stríu eru rúss­nesku­mæl­andi, en héraðið ligg­ur á milli Dnj­estr-ár­inn­ar og landa­mæra Úkraínu.

Aðskilnaðarsinn­ar börðust árið 1992 við herlið moldóvsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Hundruð lét­ust og rúss­neski her­inn greip inn í átök­in á end­an­um.

Ókeyp­is gas

Rúss­land sér Transn­i­stríu fyr­ir ókeyp­is gasbirgðum en frá því inn­rás­in hófst í Úkraínu hef­ur héraðið ein­angr­ast nokkuð frá þess­um helsta banda­manni, enda sitt hvor­um meg­in við Úkraínu.

Enn er not­ast við kyr­illíska staf­rófið í Transn­i­stríu og héraðið hef­ur sinn eig­in gjald­miðil, transn­i­strísku rúbluna, ör­ygg­is­sveit­ir og vega­bréf.

Flest­ir af íbú­un­um 465.000 hafa tvö­falt eða þre­falt rík­is­fang, frá Moldóvu, Rússlandi og Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert