Einn látinn eftir þyrluslys í Noregi

SAR Queen-leitar- og björgunarþyrla kom á vettvang ásamt sjúkraþyrlu og …
SAR Queen-leitar- og björgunarþyrla kom á vettvang ásamt sjúkraþyrlu og fjölmennu liði lögreglu og slökkviliðis. Ljósmynd/Marius Kalleberg Mydland

Einn er látinn eftir að leit­ar- og björg­un­arþyrla hrapaði vest­ur við eyj­una Sotra í Nor­egi í gærkvöldi.

Einn er í lífshættu, annar alvarlega slasaður og þrír minna slasaðir, að sögn Verdens Gang.

Þyrlan hrapaði laust fyrir klukkan 20 að staðartíma í gærkvöldi, eða klukkan 19 að íslenskum tíma, á meðan hún var í æfingarflugi. 

Var í sjónum í um 50 mínútur

Þyrl­an hélt af stað frá bæn­um Bergen klukk­an 18.24 í gær og lauk æf­ingu með flutn­inga­skipi á Oseberg, olíu- og gassvæðinu, um klukku­stund síðar, að sögn norska ríkisútvarpsins. 

Fengu bát­ar á svæðinu til­mæli um að leita að þyrlu sem stefndi í átt að vatns­yf­ir­borði, en þyrl­an var búin neyðarsendi sem virkj­ast sjálf­krafa er hann snert­ir vatn. Send­ir­inn send­ir út stöðugt út­varps­merki á 406 MHz tíðni og gerði þar með aðal­björg­un­ar­stöðinni viðvart og kleift að finna þyrluna.

Tvær sjúkra­flug­vél­ar og björg­un­arþyrla frá norska hern­um, SAR Queen, fóru á staðinn og hófu björg­un­araðgerðir. Talið er að þyrl­an hafi verið í sjónum í um 50 mín­út­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert