Hakkarahópur hliðhollur Rússum segist hafa gert árás á rafræn skilríki í Danmörku en skilríkjaþjónustan lá niðri í dag. Hópurinn hefur áður gert árás á íslenska innviði.
MitID, dönsk rafræn skilríki, virkar aðeins endrum og eins í augnablikinu, að því er fram kemur í frétt danska netmiðilsins BT. Hvorki var hægt að nota MitID-appið né vefsíðuna um hríð. Að því er virðist er vefsíðan að mestu leyti komin í lag.
„Við getum séð að þetta er árás – Nets, veitan okkar, vinnur nú í vandamálinu,“ hefur danski miðillinn eftir Digitaliseringsstyrelsen, opinberri stofnun sem sér um MitID-þjónustuna.
NoName057(16), hópur rússneskra hakkarra, lýsir sér ábyrgum á upphlaupinu, að því kemur fram í færslu hópsins á samfélagsmiðlinum Telegram.
Sömu netþrjótar stóðu á bak við netárás á Kaupmannahafnarflugvöll og á netinnviði sveitarfélagsins Týsstaðar á Norður-Jótlandi á sunnudag.
Hópurinn gerði einnig netárásir á íslenskar vefsíður þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Hörpu í maí 2023.
Árásirnar voru svokallaðar álagsárásir (DDoS) en fjölmargir vefir lágu niðri um tíma, m.a. vefur Alþingis og Isavia.