Segir Vesturlönd skapa hættu á kjarnorkustríði

Pútín í ræðustól í morgun.
Pútín í ræðustól í morgun. AFP/Alexander Nemenov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur varað Vesturlönd við því að Rússar eigi vopn sem hægt sé að beita gegn þeim og að hótanir þeirra skapi „raunverulega” hættu á kjarnorkustríði.

„Þau ættu á endanum að átta sig á því að við eigum líka vopn sem geta hitt skotmörk á þeirra umráðasvæði. Allt það sem Vesturlöndum dettur í hug skapar raunverulega hættu á deilu með notkun kjarnorkuvopna og um leið eyðileggingu siðmenningar,” sagði Pútín í árlegri ræðu sinni þar sem hann ávarpaði þjóð sína. 

Svo virðist sem Pútín hafi þarna verið að svara ummælum Emmanuel Macrons Frakklandsforseta fyrr í vikunni sem vildi ekki útiloka að senda herlið til Úkraínu til að berjast á jörðu niðri. Aðrir leiðtogar í Evrópu vísuðu því í kjölfarið á bug að þetta væri í kortunum.

Pútín flytur ræðuna í ráðstefnuhúsinu Gostiny Dvor í Moskvu í …
Pútín flytur ræðuna í ráðstefnuhúsinu Gostiny Dvor í Moskvu í morgun. AFP/Alexander Nemenov

Forsetinn sagði rússneska herinn hafa eflst og að hann færðist jafnt og þétt framar á leið sinni yfir víglínuna í Úkraínu.

„Geta hersins til að berjast hefur aukist margfalt. Þeir færa sig jafnt og þétt áfram á þó nokkrum svæðum,” sagði Pútín.

Passa þeir í raun upp á hermenn sína?

Í ræðu sinni sagði Pútín að Rússland ætti núna „kynslóð af herforingjum sem passa upp á hermenn sína”.

Þetta er í mótsögn við það sem rússneskir hermenn hafa orðið vitni að í víglínunni, að því er BBC greindi frá.

Pútín á leið í ræðustólinn.
Pútín á leið í ræðustólinn. AFP/Alexander Nemenov

Í innrásinni í Úkraínu eru rússneskir herforingjar þekktir fyrir að senda bæði illa þjálfaða og -búna hermenn, sem oftast koma úr fangelsum, út í víglínuna þar sem þeir lenda í stökustu vandræðum. Þó nokkrir eftirlifendur hafa jafnframt sagt BBC að hermenn séu jafnvel sendir af stað á undan öðrum hermönnum á móti vel búnum Úkraínuher, eingöngu til að sjá hvaðan Úkraínumennirnir eru að skjóta.

Fyrir vikið hafa Rússar misst tugi þúsunda hermanna.

Nákvæmar tölur hafa ekki verið gefnar upp en Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði nýlega að 180 þúsund rússneskir hermenn hefðu fallið í stríðinu á móti 31 þúsund Úkraínumönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert