Þrennt lést í lestarslysi í Svíþjóð

Slysið varð á Södra-lestarstöðinni í Örebro þegar maður og kona …
Slysið varð á Södra-lestarstöðinni í Örebro þegar maður og kona á þrítugsaldri, og þriðja manneskja sem ekki hafa verið borin kennsl á, urðu fyrir flutningalest. Ljósmynd/Wikipedia.org/Daniel Eriksson

Þrennt er látið eftir að hafa orðið fyrir vöruflutningalest í gærkvöldi í Örebro, um 160 kílómetra vestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi. Varð slysið laust fyrir klukkan 23 að sænskum tíma á Södra-lestarstöðinni þar í bænum.

Samkvæmt upplýsingum frá sænsku samgöngustofunni Trafikverket hafði fólkið sem lést – maður og kona á þrítugsaldri og þriðja manneskja sem lögregla hefur ekki borið kennsl á – nýverið yfirgefið farþegalest og gekk að því búnu yfir lestarteina við hliðina þar sem flutningalestin kom aðvífandi.

„Ekkert bendir til annars en að hér hafi bara verið um hörmulegt slys að ræða,“ segir Mats Öhman, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Bergslagen-umdæminu, við sænska ríkisútvarpið SVT en lögregla og samgönguyfirvöld rannsaka nú tildrög slyssins.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert