Sendiherra Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum krefst þess að öryggisráð stofnunarinnar fordæmi atvikið á Gasasvæðinu í gær þegar Ísraelsher hóf skothríð á Palestínumenn sem ætluðu að fá úthlutað mat.
Að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasasvæðinu, sem Hamas-samtökin stjórna, voru 112 drepnir og 760 særðir.
„Öryggisráðið á að segja að nú sé nóg komið,” sagði Riyad Mansour við blaðamenn.
Heimildarmaður Ísraela sagði hermenn hafa skotið á fólkið en að þeir hefðu talið að ógn stafaði af því.
Ísraelsher sagði troðning hafa orðið þegar þúsundir íbúa á Gasasvæðinu umkringdu 38 vörubíla sem voru að koma þangað með neyðargögn. Það hafi leitt til þess að tugir létust og særðust, þar á meðal lentu einhverjir undir vörubílum.
Kínversk stjórnvöld hafa fordæmt atvikið, ásamt meðal annars Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði atvikið flækja viðkvæmar samningaviðræður um vopnahlé í stríði Ísraelshers og Hamas á Gasasvæðinu, sem hefur staðið yfir í tæpa fimm mánuði. Hvíta húsið sagðist í yfirlýsingu hafa áhyggjur af því sem gerðist.