Ljúdmíla Navalnaja heimsótti gröf sonar síns, Alexei Navalní, í Borisovo-kirkjugarðinum í Moskvu í Rússlandi í morgun. Rússneski stjórnarandstæðingurinn var jarðsettur í gær.
Margir höfðu þegar lagt blóm á leiði Navalnís er Ljúdmíla og Alla Abrosimova, tengdamóðir Navalnís, heimsóttu kirkjugarðinn.
Júlía Navalnaja, ekkja Navalnís, börn þeirra tvö og bróðir Navalnís eru öll búsett utan Rússlands og voru ekki viðstödd jarðarförina þar sem að þau eiga í hættu á að vera handtekin vegna andstöðu við Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
Júlía hefur heitið að halda áfram störfum eiginmannsins og segir Pútín hafa „myrt“ Navalní.
Blaðamenn AFP-fréttaveitunnar sáu syrgjendur leggja blóm á leiðið í dag en rússneska lögreglan er enn með viðveru í kirkjugarðinum.
Þúsundir manna lögðu leið sína í gær að útför Navalnís og þá voru minningarstundir haldnar víða um heim.