Herinn flytur Harald til Noregs

Haraldur Noregskonungur er á leið heim úr fríinu í Malasíu …
Haraldur Noregskonungur er á leið heim úr fríinu í Malasíu þar sem hann var lagður inn á sjúkrahús vegna sýkingar. AFP/Sergei Gapon

Haraldur Noregskonungur, sem liggur á sjúkrahúsi á eyjunni Langkawi í Malasíu, verður fluttur heim til Noregs á kostnað hersins sem sendi þangað leiguflugvél frá skandinavíska flugfélaginu SAS. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá hernum.

Flugvélin er sérútbúin til sjúkraflugs og kostar heimflutningur konungs, sem er í fríi fyrir eigin reikning, rúmar tvær milljónir norskra króna sem nemur 26 milljónum íslenskra króna.

Fékk Haraldur sýkingu í fríinu og var lagður inn á þriðjudaginn en hans síðasta innlögn á sjúkrahús fyrir það var í janúar. Eftir því sem konungshöllin greindi frá á fimmtudaginn er konungur á batavegi og hefur umönnun hans á Langkawi öll verið hin besta.

Hvílist fyrir flutninginn

Upplýsingafulltrúi hersins vildi í fyrstu ekki greina frá því hvaðan greiðslur fyrir flutning Haraldar kæmu, þegar dagblaðið Aftenposten falaðist eftir þeim upplýsingum, en í gærkvöldi var það upplýst að herinn greiddi flutninginn af sínu fjárlagaframlagi sem fyrir árið 2024 er rúmir 90 milljarðar króna, jafnvirði tæplega 1.200 milljarða íslenskra króna.

Ekki er enn ljóst hvenær Haraldur verður fluttur heim en í tilkynningu frá konungshöllinni segir að honum sé uppálagt að hvílast í einn til tvo daga fyrir ferðalagið. Samkvæmt áætlun átti hann að snúa heim til Noregs 7. mars, sem er á fimmtudaginn kemur, en Hákon krónprins gegnir embættisskyldum föður síns í fjarveru hans.

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert