Skotinn til bana í Stokkhólmi

Maður var skotinn til bana í Suður-Stokkhólmi um kvöldmatarleytið í …
Maður var skotinn til bana í Suður-Stokkhólmi um kvöldmatarleytið í gær og situr einn grunaður í haldi lögreglu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á þrítugsaldri var skotinn til bana í Skärholmen í suðurhluta sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms í gærkvöldi og situr annar í haldi lögreglu grunaður um verknaðinn.

Það var um klukkan 18 að sænskum tíma sem lögreglunni barst tilkynning um háværa hvelli þar á svæðinu og fundu aðvífandi lögreglumenn fórnarlambið, þá enn á lífi, á vettvangi. Lést maðurinn skömmu síðar af sárum sínum.

„Ég sat heima í íbúðinni minni með frúnni þegar við heyrðum fjóra skothvelli og var skammt milli þeirra,“ segir vitni sem sænska ríkisútvarpið SVT ræddi við og kveður lögreglu og sjúkrabifreið hafa komið á vettvang skömmu síðar.

Óljóst hvort árásin tengist gengjum

Það var svo um klukkan sjö í morgun sem lögregla sendi frá sér tilkynningu um að hún hefði haft hendur í hári grunaðs skotmanns eftir leit sem lögregla beitti meðal annars hundum við.

Að sögn Önnu Stålhuvud, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, vinnur lögregla nú að hefðbundinni upplýsingaöflun og ræðir við fólk sem var statt á eða nærri vettvangi árásarinnar. Hún segir enn óljóst hvort hinn látni hafi komið við sögu lögreglunnar í lifanda lífi auk þess sem lögregla geti enn sem komið er ekki sagt til um hvort atburðurinn tengist starfsemi eða væringum glæpagengja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert