Jack Teixeira, þjóðvarðliðinn sem grunaður var um að hafa lekið fjölda leynilegra skjala á netið árin 2022-2023, lýsti sig í dag sekan af öllum ákæruliðum.
Teixeira var ákærður í sex liðum fyrir að hafa deilt upplýsingum sem varða þjóðaröryggi Bandaríkjanna á mismunandi samfélagsmiðlum. Hann deildi m.a. trúnaðarskjölum á Twitter, 4Chan og Telegram á spjallþráðum, sem og í tölvuleikjaspjallforritinu Discord. Um var að ræða einn stærsta gagnaleka í sögu Bandaríkjanna.
Hann hafði áður lýst yfir sakleysi sínu, en féllst á að lýsa yfir sekt gegn því að fá styttri fangelsisdóm, en hann hefði mögulega getað fengið allt að 60 ára fangelsisdóm fyrir lekann.
Saksóknarar munu nú biðja um 200 mánuði, það er 16 ár og 8 mánuði, og hefur Teixeira, sem er 22 ára gamall, fallist á að gera ekki ágreining um dóminn. Þá verður honum gerð sekt upp á 50.000 bandaríkjadali, eða sem nemur tæpum 6,9 milljónum íslenskra króna.
Á meðal þess sem Teixeira setti á netið voru kort og gervihnattamyndir, sem og viðkvæmar upplýsingar um bandamenn Bandaríkjanna, þar á meðal Úkraínu. Þótti vekja furðu að Teixeira hefði haft aðgang að gögnunum, þar sem hann var ekki hátt settur innan þjóðvarðliðsins.