Vottar kveðast skoða lagaleg úrræði

Hluti af lögfræðiteymi Votta Jehóva í Noregi í sal Héraðsdóms …
Hluti af lögfræðiteymi Votta Jehóva í Noregi í sal Héraðsdóms Óslóar við aðalmeðferð málsins í janúar. Ljósmynd/Aðsend

„Niðurstaða Héraðsdóms Óslóar er okkur vonbrigði,“ segir Jørgen Pedersen, talsmaður Votta Jehóva í Noregi, í samtali við mbl.is um nýuppkveðinn dóm héraðsdóms í dag þar sem norska ríkið var sýknað af kröfum trúfélagsins í dómsmáli sem Vottar Jehóva höfðuðu og kröfðust þess að fá ríkisstyrki sína fyrir árin 2021 til 2023 greidda með vöxtum auk þess að vera heimilað að skrá sig á ný sem trúfélag í Noregi.

Kveður Pedersen dóminn hafa látið undir höfuð leggjast að rétta hlut trúfélagsins sem mismunað hafi verið með úrskurði fylkismannsins í Ósló og Viken og barna- og fjölskylduráðuneytisins á sínum tíma þegar það var svipt styrkjum sínum í janúar 2022 í kjölfar meðal annars umfjöllunar Brennpunkt-þáttaraðar norska ríkisútvarpsins NRK, Guðs útvöldu, þar sem fjallað var um trúarofbeldi í Noregi.

Muni áfram virða norska ríkið

„Þar sem þessi niðurstaða er hvorki samræmanleg niðurstöðum æðra dómsvalds í öðrum löndum né Mannréttindadómstóls Evrópu hvað Votta Jehóva snertir munum við gaumgæfa lagaleg úrræði okkar,“ svarar Pedersen spurningu blaðamanns um hvort trúfélagið hyggist áfrýja til norska millidómstigsins lögmannsréttar.

Segir Pedersen Votta Jehóva eftir sem áður munu virða norska ríkið og halda áfram að „hafa jákvæð áhrif á samfélagið samhliða því sem við sýnum frjálsum vilja hverrar manneskju virðingu“. Vottar Jehóva hafi stundað sína trú með friðsemd síðustu 130 ár, þar af sem skráð trúfélag í 30 ár. Trúfélagið telji rúmar 8,8 milljónir félaga á heimsvísu og iðki trú sína frjálst í rúmlega 200 löndum.

Alvarleg meingerð gegn réttindum

Eins og fram kemur í viðhlekkjaðri frétt hér að ofan féllst Héraðsdómur Óslóar ekki á sjónarmið Votta Jehóva um friðsamlega trúariðkun og segir eftirfarandi í rökstuðningi:

„Með regl­um sín­um og fram­kvæmd á út­skúf­un hvetja Vott­ar Jehóva til þess að þeir fé­lags­menn séu sniðgengn­ir sem vísað er úr fé­lag­inu eða draga sig út úr því með þeim af­leiðing­um að þeir, með fáum und­an­tekn­ing­um, sæta sam­fé­lags­legri ein­angr­un frá þeim sem áfram eru í fé­lag­inu. Fellst dóm­ur­inn á það með rík­inu að fram­kvæmd þessa fel­ur í sér al­var­lega mein­gerð gegn rétt­ind­um og frelsi annarra sem er grund­völl­ur þess að neita [fé­lag­inu] um rík­is­styrk og skrán­ingu sem trú­fé­lag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert