Héraðsdómur Óslóar í Noregi hefur sýknað norska ríkið af kröfu trúfélagsins Votta Jehóva þar í landi um að því verði gert að greiða trúfélaginu ríkisstyrki vegna áranna 2021 til 2023 auk vaxta, alls 51 milljón norskra króna, jafnvirði 672 milljóna íslenskra króna, en norsk yfirvöld sviptu trúfélagið styrkjum sínum í janúar 2022 í kjölfar þess er norska ríkisútvarpið NRK afhjúpaði útskúfun og útilokun innan trúfélagsins í þáttaröðinni Guds utvalde, eða Guðs útvöldu.
„Niðurstaða [dómsins] er að skilyrðin til að neita Vottum Jehóva um ríkisstyrk og skráningu sem trúfélag samkvæmt lögum um trúfélög eru uppfyllt,“ segir í dómsorði en mbl.is hefur dóminn undir höndum.
„Með reglum sínum og framkvæmd á útskúfun hvetja Vottar Jehóva til þess að þeir félagsmenn séu sniðgengnir sem vísað er úr félaginu eða draga sig út úr því með þeim afleiðingum að þeir, með fáum undantekningum, sæta samfélagslegri einangrun frá þeim sem áfram eru í félaginu. Fellst dómurinn á það með ríkinu að framkvæmd þessa felur í sér alvarlega meingerð gegn réttindum og frelsi annarra sem er grundvöllur þess að neita [félaginu] um ríkisstyrk og skráningu sem trúfélag,“ segir þar enn fremur.
Í dómsorði segir að ríkið skuli vera sýknað af kröfu trúfélagsins og er Vottum Jehóva gert að greiða 1.140.505 krónur í málskostnað, jafnvirði tæplega fimmtán milljóna íslenskra króna.
Málatilbúnaður Votta Jehóva byggði fyrst og fremst á því að synjun fylkismannsins í Ósló og Viken árið 2022 um ríkisstyrk trúfélaga og höfnun norska ríkisins á skráningu Votta Jehóva sem trúfélags væru ógildar stjórnvaldsákvarðanir en samkvæmt nýjum norskum lögum um trúfélög uppfylla Vottar Jehóva ekki lengur skilyrðin um að vera skráð trúfélag í Noregi.
Skilningur ríkisins byggi í meginatriðum á eigin túlkun trúarlegra texta og geti trúarleg spursmál, svo sem afstaða trúfélagsins gagnvart brottvísuðum og þeim sem hættir eru, ekki verið prófsteinn fyrir yfirvöldum og dómstólum.
Þá sé ekki sannað að neins konar „skaðleg“ framkvæmd hafi átt sér stað með útskúfun barna úr trúfélaginu eða sams konar framkvæmd sem brjóti á rétti félaga til að segja sig úr félaginu af fúsum og frjálsum vilja. Hver félagi fyrir sig ákveði sjálfur, út frá biblíulegum sjónarmiðum, hvaða afstöðu hann taki gagnvart útskúfuðum og þeim sem hætt hafi.
Að hafa ekki samskipti við þessa hópa verndi viðkomandi félaga í Vottum Jehóva gegn óæskilegum áhrifum auk þess sem það geti hjálpað hinum útskúfuðu að öðlast á ný gott samband við Jehóva er meðal þeirra raka sem Vottar Jehóva tefldu fram við aðalmeðferðina í janúar.