Telja Hamas-liða hafa gerst seka um nauðganir

Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni í Ísrael 7. október.
Vopnaður Hamas-liði á tónlistarhátíðinni í Ísrael 7. október. AFP

Talið er að liðsmenn Hamas-samtakanna hafi gerst sekir um nauðganir þegar þeir réðust inn í Ísrael 7. október í fyrra og að gíslum sem voru í framhaldinu fluttir á Gasasvæðið hafi einnig verið nauðgað.

Þetta kemur fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem var birt í gær.

Pramila Patten, sérstakur fulltrúi stofnunarinnar þegar kemur að kynferðisofbeldi á átakasvæðum, fann „skýrar og sannfærandi upplýsingar” um að sumum gíslanna hefði verið nauðgað. Hún telur að ofbeldið gæti hafa haldið áfram gagnvart þeim sem enn eru í haldi Hamas-samtakanna.

Sameinuðu þjóðirnar, SÞ, hafa verið gagnrýndar fyrir seinagang í viðbrögðum við nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi sem Ísraelar saka Hamas um að hafa framið 7. október.

Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir Hamas-liða leiða mann áfram á …
Skjáskot úr myndskeiði sem sýnir Hamas-liða leiða mann áfram á tónlistarhátíðinni. AFP

Gerðist á þremur stöðum hið minnsta

Patten heimsótti Ísrael og Vesturbakkann, ásamt sérfræðingum, í tvær og hálfa viku snemma í febrúar.

Fram kemur í skýrslunni að teymið telur að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað á mörgum stöðum þann 7. október, þar á meðal nauðganir og hópnauðganir.

Þetta hefði gerst á að minnsta kosti þremur stöðum: Nova-tónlistarhátíðinni og nágrenni hennar, Vegi 232 og á Kibbuz Re´im.

„Í flestum þessara tilvika var fórnarlömbunum nauðgað fyrst og síðan voru þau drepin og að minnsta kosti tvö tilvik tengjast nauðgun á líkum kvenna,” sagði í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert