Ekkja Navalnís efnir til mótmæla

Júlía Navalnaja, ekkja Alexei Navalnís, hvetur stuðningsmenn hans að mótmæla …
Júlía Navalnaja, ekkja Alexei Navalnís, hvetur stuðningsmenn hans að mótmæla yfirvöldum í Rússlandi á komandi kjördegi. AFP/Frederick Florin

Júlía Navalnaja, ekkja rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís, hefur efnt til mótmæla á komandi kjördegi í Rússlandi þar sem kosið verður um forseta Rússlands. 

Stefnt er að því að mótmæla Vladimír Pútín, forseta Rússlands, með því að mynda langar raðir fyrir utan kjörstaði. 

Ætla að yfirgnæfa kjörstaðina

Navalnaja hefur heitið því að halda áfram starfi Navalnís og andstöðu við yfirvöld í Rússlandi, en Navalní lét lífið fyrir um mánuði síðan í rússneskri fanganýlendu.

Hún birti myndband á vefsíðunni YouTube fyrr í dag þar sem hún hvatti fólk til þess að troðfylla kjörstaði víðs vegar um landið á komandi kjördegi. 

„Við þurfum að nýta okkur þennan kjördag til þess að sýna fram á að við erum hér og við erum fjölmenn,“ sagði hún og hélt áfram: 

„Við þurfum að mæta á sama tíma á sama degi: 17. mars klukkan 12.00. Hvað skal gera næst? Þú ræður því. Þú getur kosið hvaða frambjóðenda nema Pútín. Þú getur skemmt kjörseðillinn þinn. Þú getur skrifað nafn Navalnís í stórum stöfum.“

Enginn alvöru mótframbjóðandi

Yfirvöld í Rússlandi hafa komið í veg fyrir raunverulegt mótframboð gegn Pútín og bendir því allt til þess að hann tryggi sér áframhaldandi valdastöðu í næstkomandi kosningum. 

Dmitrí Peskov, talsmaður yfirvalda í Rússlandi segir að yfirvöld þar í landi muni ekki sætta sig lengur við gagnrýni Vesturlanda á hinu rússneska lýðræði. 

„Við munum halda þær kosningar sem fólkið okkar þarf á að halda,“ sagði Peskov.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert