Ófremdarástand á Haítí

Íbúar Port-au-Prince yfirgefa höfuðborgina með eigur sínar til að komast …
Íbúar Port-au-Prince yfirgefa höfuðborgina með eigur sínar til að komast undan ofbeldisöldunni sem skekur bæinn. AFP/Clarens Siffroy

Ófremdarástand ríkir nú í höfuðborg Haítí, Port-au-Prince, þar sem yfirvöld eiga í fullu fangi að ná yfirráðum í borginni af vopnuðum glæpagengjum.

Ófriðaraldan hófst í síðustu viku þegar gerð var árás á eitt fangelsa höfuðstaðarins með þeim afleiðingum að þúsundir fanga ganga nú lausir úr haldi.

Stór hluti höfuðborgarinnar í höndum glæpagengja

Íbúar höfuðborgarinnar reyna annaðhvort að flýja hana eða þá að gæta þess að fara aðeins utandyra til að ná í brýnustu nauðsynjar. Yfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi enda eru stórir hlutar Port-au-Prince nú undir yfirráðum glæpagengja.

Fyrir einu glæpagengi fer Jimmy Cherizier, gjarnan kallaður „Grillið“. Hann var eitt sinn lögreglumaður og er talinn sekur um ýmis mannréttindabrot. Hann sagði að óöldin sem nú ríki muni færast enn í aukana og verða að borgarastyrjöld ef forsætisráðherrann Ariel Henry segi ekki af sér.

Forsætisráðherrann kemst ekki aftur heim

Henry forsætisráðherra er staddur utan landsteinanna eftir ferð til Kenía. Hann hefur óskað eftir því að Sameinuðu þjóðirnar sendi vopnað lið til eyjunnar til að stilla til friðar.

Hann ætlaði að snúa aftur heim en gat það ekki þar sem verið var að ráðast á alþjóðavöllinn í Port-au-Prince. Þess í stað óskaði hann eftir því að fá að lenda í Dóminíska lýðveldinu. Ríkin tvö eru bæði á eyjunni Hispaniola. Yfirvöld í Santo Domingo meinuðu honum að lenda þar.

Henry hefði með réttu átt að láta af starfi forsætisráðherra fyrir mánuði síðan. Glæpagengin segja að þráseta hans á valdastóli hafi gert þeim nauðugan þann kost að fjarlægja hann af valdastóli með valdi.

Mannrán og ofbeldisbrot daglegt brauð

Stjórnvöld á Haítí hafa sagst munu ná aftur tökum á stöðunni. Lögreglan þar í landi er þekkt fyrir að vera vanbúin og vanmáttug, sérstaklega í samanburði við glæpagengin, segir í frétt Al Jazeera.

Það er því ekki að undra að mannrán og önnur ofbeldisbrot séu daglegt brauð þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert