Í dag gengur Svíþjóð formlega í Atlantshafsbandalagið (NATO) og verður þar með 32. ríkið í bandalaginu.
Þetta eru tímamót fyrir Norðurlandaþjóðina en Svíþjóð hefur í um tvær aldir reynt að gæta hlutleysis til að styggja ekki Rússland.
Sænski forsætisráðherrann Ulf Kristersson er við þetta tilefni í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, og mun hann hitta Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem mun taka á móti skjölum þess efnis að Svíþjóð sé orðinn fullgildur meðlimur í NATO við hátíðlega athöfn.
Fáni Svíþjóðar verður svo dreginn að hún í Brussel á mánudag við höfuðstöðvar bandalagsins.
Rússar hafa heitið „mótvægisaðgerðum“ vegna inngöngu Svíþjóðar í NATO, sérstaklega ef hermenn og eignir bandalagsins koma sér fyrir í Svíþjóð.
Svíþjóð og Finnland hafa í gegnum tíðina forðast það að ganga formlega í NATO, sem stofnað var í kalda stríðinu til að sameinast gegn Sovétríkjunum.
En Finnland og Svíþjóð báðu um inngöngu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022.
Finnland gekk í bandalagið með góðum árangri í apríl 2023 en tilraun Svía gekk ekki alveg jafn snurðulaust fyrir sig.
Fyrst var það bandalagsþjóðin Tyrkland sem sem hægði á inngöngunni og um leið og sú hindrun var yfirstaðin kom Viktor nokkur Orban til leiks, forsætisráðherra Ungverjalands.
Hann var tregur til að veita blessun sína en 26. febrúar kaus ungverska þingið með því að leyfa Svíþjóð að ganga í NATO. Með þeirri ákvörðun höfðu allar bandalagsþjóðir, 31 að tölu, gefið Svíþjóð blessun sína og þar með talið Ísland.