Bandaríkjaher með höfn við Gasasvæðið

Börn á gangi í Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins.
Börn á gangi í Khan Yunis á suðurhluta Gasasvæðisins. AFP

Bandaríkjaher verður með tímabundna höfn undan ströndum Gasasvæðisins til að flytja þangað hjálpargögn.

Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi frá þessu í stefnuræðu sinni í nótt.

Forsetinn hvatti Ísraela til að hleypa aukinni aðstoð inn á svæðið en varði í leiðinni hernað þeirra gegn Hamas-samtökunum.

Palestínsk kona á gangi með eigur sínar á Gasasvæðinu.
Palestínsk kona á gangi með eigur sínar á Gasasvæðinu. AFP

„Í kvöld ætla ég að biðja bandaríska herinn um að leiða leiðangur sem snýst um að búa til tímabundna höfn í Miðjarðarhafi undan ströndum Gasasvæðisins sem getur tekið á móti stórum sendingum með mat, vatn, lyf og tímabundin neyðarskýli,” sagði Biden í ræðu sinni.

„Með þessari tímabundu höfn verður hægt að stórauka magn hjálpargagna í mannúðarskyni á Gasasvæðið,” bætti hann við.

Forsetinn tók fram að bandarískt herlið myndi ekki stíga fæti á Gasasvæðið.

Bandaríkin hafa undanfarna daga látið hjálpargögn falla til jarðar á svæðið úr flugvélum í samstarfi við Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert