Bandarískt herskip á leið til Gasa

Tilgangurinn er að aðstoða við að koma hjálpargögnum sjóleiðina til …
Tilgangurinn er að aðstoða við að koma hjálpargögnum sjóleiðina til Gasa. Ljósmynd/US Central Command

Bandarískt herskip siglir nú í átt að Miðausturlöndum með búnað til að smíða bryggju undan ströndum Gasa. Tilgangurinn er að aðstoða við að koma hjálpargögnum sjóleiðina til Gasa.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í stefnuræðu sinni á dögunum að Bandaríkjamenn ætluðu að byggja tímabundna höfn svo hægt verði að flytja hjálpargögn.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að hungursneyð á Gasasvæðinu sé næstum óumflýjanleg og að börn deyi úr hungri. Afhendingar hjálpargagna frá landi og úr lofti hafa reynst erfiðar og hættulegar, að því er BBC greinir frá.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna þurfti að gera hlé á afhendingum á landi eftir að bílalestir urðu fyrir skothríð og voru rændar. Þá bárust fregnir af því á föstudag að fimm mans hefðu látið lífið af völdum neyðarbirgða sem varpað var úr lofti yfir Gasa, þegar fallhlíf vörubrettisins opnaðist ekki.

Neyðarbirgðum varpað úr lofti yfir Gasa.
Neyðarbirgðum varpað úr lofti yfir Gasa. AFP

Hjálpargögn á leið frá Kýpur

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið út að það gæti tekið allt að 60 daga að smíða bryggjuna með aðstoð þúsund hermanna. Að mati góðgerðarsamtaka geta sjúklingar á Gasa ekki beðið svo lengi.

Á sama tíma bíður skip hlaðið hjálpargögnum eftir heimild til að leggja af stað frá Kýpur til Gasa. Vonir eru bundnar við að skipið, Open Arms, geti lagt af stað fyrir morgundaginn, eftir að Evrópusambandið tilkynnti að ný sjóleið yrði opnuð yfir helgina til að hægt verði að sigla með hjálpargögn frá Kýpur.

Skipið tilheyrir spænsku góðgerðarsamtökunum Open Arms en bandarísku góðgerðarsamtökin World Central Kitchen unnu að því að ferma skipið.

Til stendur að skipið Open Arms sigli með hjálpargögn frá …
Til stendur að skipið Open Arms sigli með hjálpargögn frá Kýpur til Gasa. AFP/Open Arms
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert