Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur með yfirgnæfandi meirihluta samþykkt frumvarp um að þvinga TikTok til að losa sig við kínverska eigendur sína ellegar eiga yfir höfði sér bann í Bandaríkjunum.
Þingmennirnir samþykktu frumvarpið með 352 atkvæðum gegn 65. Sjaldgæft er að slíkt samkomulag náist á milli flokka á bandaríska þinginu.
Þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið samþykkt af fulltrúadeildinni þarf öldungadeild Bandaríkjaþings einnig að veita samþykki sitt til að það öðlist gildi. Óljóst er hvort nægur stuðningur er þar fyrir hendi, að sögn BBC.
Þar kemur einnig fram að líklegasta leiðin til að framfylgja banninu, ef það verður samþykkt í öldungadeildinni, er ef verslunum með smáforrit, til dæmis Apple eða Google, verður fyrirskipað að fjarlægja TikTok af síðum sínum.
Það myndi þýða að fólk gæti ekki lengur hlaðið appinu niður á þann hátt. Þeir sem þegar væru komnir með appið myndu aftur á móti áfram hafa það í sínum símum.
Með tímanum myndi appið hætta að fá uppfærslur, sem gæti skapað vandamál fyrir notendur þess.