Ása Ellerup, eiginkona meinta raðmorðingjans Rex Heuermann, kveðst heimsækja Heuermann vikulega og ætlar að leyfa honum að njóta vafans.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögmanni Ásu sem CBS news greinir frá.
Haft er eftir Ásu að hún hafi samúð með fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra. Enn fremur er haft eftir henni að enginn eigi það skilið að deyja á þann hátt sem fórnarlömbin gerðu.
Rex Heuermann er grunaður um að hafa orðið fjölda kvenna að bana og er ákærður, að svo stöddu, fyrir morð á fjórum konum.
„Ég mun meta öll sönnunargögn og bíða með að fella dóm þar til réttarhöldunum lýkur,“ er haft eftir Ásu.
„Ég hef leyft Rex að njóta vafans, eins og við eigum öll skilið.“
Ása sótti um skilnað eftir að eiginmaður hennar var handtekinn, en lögfræðingar hennar tóku þó sérstaklega fram að hún heimsæki Heuermann í hverri viku og telur hann ekki vera færan um að fremja þá glæpi sem hann er sakaður um.