„Rökfræði ræningja“ að baki ákvörðun Bandaríkjanna

Kína segir um geðþóttaákvörðun Bandaríkjanna að ræða sem fari þvert …
Kína segir um geðþóttaákvörðun Bandaríkjanna að ræða sem fari þvert á meginreglur um alþjóðlegar efnahags- og viðskiptareglur. AFP/Nicolas Asfouri

Kína segir „rökfræði ræningja“ fylgja ákvörðun Bandaríkjaþings um að þvinga TikTok til að rjúfa tengsl við kínverska móðurfyrirtæki sitt ellegar verða bannað í Bandaríkjunum. 

Vinsældir forritsins hafa stóraukist um allan heim á sama tíma og eignarhald þess, sem kínverski tæknirisinn ByteDance fer með, hefur ýtt undir áhyggjur í Bandaríkjunum.

Er það einna helst vegna meintrar undirgefni tæknirisans við Kommúnistaflokkinn í Peking. 

Þvinga TikTok til að rjúfa tengsl 

Það var í gær sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarp um að þvinga TikTok til að rjúfa tengsl við kínverska móðurfyrirtæki sitt ellegar eiga yfir höfði sér bann í Bandaríkjunum.

Frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta en á enn eftir að fara í gegnum öldungadeild Bandaríkjaþings til að öðlast gildi. Óljóst er hvort nægur stuðningur sé fyrir hendi þar. 

Engin sanngirni eða réttlæti 

„Frumvarpið sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti skýtur skökku við hvað snertir meginregluna um sanngjarna samkeppni og alþjóðlegar efnahags- og viðskiptareglur,“ sagði Wang Wen­bin, talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is Kína, á blaðamannafundi. 

„Ef hægt er að taka geðþóttaákvörðun um að nota svokallaðar þjóðaröryggisástæður til að bæla niður framúrskarandi fyrirtæki frá öðrum löndum er engin sanngirni eða réttlæti fyrir hendi,“ sagði hann. 

„Þegar einhver sér eitthvað gott sem önnur manneskja á og reynir að eigna sér það, þá er um að ræða rökfræði ræningja,“ sagði hann enn fremur.

„Það hvernig Bandaríkin hafa hagað sér í tengslum við málið gerir heiminum kleift að átta sig betur á því hvort svokallaðar reglur og skipan Bandaríkjanna séu hagkvæmar fyrir allan heiminn, eða hvort þær þjóni einungis Bandaríkjunum sjálfum,“ sagði Wenbin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert